Búði eða Búðafoss er mikilfenglegur foss, enda næst vatnsmesti foss Þjórsár á eftir Urriðafossi. Búði er fyrir margar sakir sérstakur ef horft er til jarðfræði og jarðsögu fossins. Við upphaf Íslandsbyggðar var Búði líklegast ekki til heldur rann Þjórsá um Hestafoss í svokallaðri Árneskvísl, austan og sunnan Árness sem Árnessýsla dregur nafn sitt af. Árnes hefur á þeim tíma staðið sem nes út í Þjórsá. Einhvern tímann eftir að land byggðist hefur Þjórsá hins vegar tekið að brjóta sér leið um haft niður í átt að Kálfá og fellur aðalkvísl fljótsins nú því um Búða vestur meðfram Árnesi en minni hluti Þjórsár rennur austan Árness. Mögulega er þessi þróun enn í gangi, en hún hefur staðið í langan tíma og er hægvirk svo Hestafoss mun vart hverfa á næstunni. Um Búða liggur einn mesti jökulgarður Íslands frá lokum síðustu ísaldar, hinn svo kallaði Búðagarður, en aðra hluta hans má sjá víða um Suðurlandið.
Búði hefur lengi verið afskekktur og fáfarinn og eykur það í raun á gildi hans þótt það geri hann að sama skapi berskjaldaðri fyrir virkjanaframkvæmdum. Hér má lesa grein um Búða í Þjóðólfi frá 1904, þar sem talað er um gildi fossins og fegurð hans. Búði verður gjöreyðilagður með Holtavirkjun, stífla verður reist rétt ofan fossbrúnarinnar og fossinn verður vatnslaus. |
Hestafoss er einn af minnst þekktu fossum Þjórsár. Sú staðreynd ætti í raun að gera hann enn eftirsóttari sem náttúruperlu, því fáir þekkja hann eða eiga mynd af honum í fórum sínum og umferð við hann er hverfandi. Hestafoss er nokkurs konar systurfoss Búða þar sem hann fellur í syðri og vatnsminni kvísl Þjórsár við Árnes, en Búði er í nyrðri kvíslinni og er miklu vatnsmeiri.
Fólk sem hefur heimsótt Hestafoss veit þó að fossinn er ákaflega fagur, þar sem hann fellur fram af hraunbrún Þjórsárhrauns. Fossinn hefur margbreytilega ásýnd, næst meginlandinu fellur hann fallega fram af fossbrúninni, miður fossinn er eins konar slæðufoss en með hrjúfu undirlagi. Næst Árnesi rennur áin svo um þungan og mikinn streng, þar sem meginvatn fossins rennur leið sína. Hestafoss mun hverfa undir Árneslón ef af Holtavirkjun verður. |
Viðey eða Minnanúpshólmi er iðagræn eyja í miðri Þjórsá, eftirtektarverð fyrir sérstakt náttúrufar. Eyjan nýtur náttúrulegrar verndar af fljótinu, sem rennur straumþungt beggja vegna Viðeyjar. Viðey var friðlýst árið 2011 vegna sérstæðrar náttúru.
Hér má lesa mikilvæga umsögn Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur, íbúa við Þjórsá og náttúrufræðings, um Viðey og hið mikla náttúrulega gildi hennar. Viðey missir náttúrulega vernd sína ef af Hvammsvirkjun verður, þar sem farvegur Þjórsár verður þurr beggja vegna eyjunnar. |
Gaukshöfði er heiti á hnarreistum höfða, sem skagar út yfir Þjórsá við minni hins eiginlega Þjórsárdals. Höfðinn er kenndur við Gauk Trandilsson, bónda á Stöng í Þjórsárdal. Ofan af Gaukshöfða er vítt og mikið útsýni yfir Þjórsá og landið handan hennar þar sem hið mikla eldfjall Hekla blasir við. Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, mun liggja í farvegi Þjórsár langleiðina upp að höfðanum og er þarna því gott tækifæri til að dást að landinu og umhverfi árinnar ef Hvammsvirkjun skyldi verða að veruleika í framtíðinni. Örfáum áratugum eftir Hvammsvirkjun mun þurfa að dýpka virkjunarlónið með því að dæla jökulleir upp af botni þess. Leirnum verður hrúgað upp á svæðin beggja vegna ár, einkum á svæði handan árinnar sem grædd hafa verið upp á síðustu árum og áratugum. Mikil hætta er á að leirfok af völdum virkjunarinnar verði óviðráðanlegt.
|
Tröllkonuhlaup er heiti á allsérstökum fossi í Þjórsá, austan Búrfells. Þar rennur Þjórsá ofan af hraunstalli en í miðri ánni eru tvær háar eyjur, hömrum girtar. Áður en Búrfellsvirkjun var tekin í notkun árið 1970 rann Þjórsá þarna óskert og var fossinn ákaflega tignarlegur. Með byggingu Búrfellsvirkjunar var megninu af vatni Þjórsár fleytt fram hjá náttúrulegum farvegi sínum í gegnum virkjunina. Við það missti Tröllkonuhlaup kraft sinn, en það fær hann þó stöku sinnum ef vatnsrennsli er of mikið fyrir virkjunina. Er vatni þá „hleypt fram hjá“ og niður náttúrulegan farveg Þjórsár austan og sunnan Búrfells. Handan þjóðvegarins frá Tröllkonuhlaupi er önnur töfrandi náttúruperla, Fossabrekkur í Ytri-Rangá. Óhætt er að segja að andstæðurnar séu óvíða meiri en á milli þessara tveggja vatnsfalla.
Nafnið Tröllkonuhlaup tengist þekktri þjóðsögu af Gissuri nokkrum, bónda á Lækjarbotnum. Í þjóðsögunni segir af tröllkonum tveimur, sem bjuggu í Búrfelli og Bjólfelli, en sú fyrrnefnda vildi sjóða Gissur og elti hann yfir Tröllkonuhlaup. Hér má lesa söguna, eins og hún birtist í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Neðar í farvegi Þjórsár sunnan Búrfells liggur annars þekktur foss, Þjófafoss. Umgjörð hans er ákaflega falleg og tignarleg, hraunlögin þar eru mjög stuðluð með Búrfell og Heklu vakandi yfir. Á milli Þjófafoss og Tröllkonuhlaups er einkar fallegt gljúfur, sem gaman er að ganga eftir og njóta. Tröllkonuhlaup, Þjófafoss og Þjórsá þar á milli, munu missa enn meira af því vatni sem nú rennur um náttúrulegan farveg Þjórsár verði af byggingu nýrrar virkjunar, Búrfellsvirkjunar II. |
Urriðafoss er vatnsmesti foss Íslands. Þrátt fyrir að vera miklu lægri er Urriðafoss um þrisvar til fjórum sinnum vatnsmeiri en Gullfoss og er farvegur Þjórsár við fossinn raunar hátt í 250 metrar á breidd, svo umgjörð árinnar er ákaflega stórbrotin. Neðan við Urriðafoss dreifir Þjórsá úr sér og verður að lygnu stórfljóti alla leið til sjávar en ofan við fossinn streymir fljótið milli hárra hraunveggja, og eru hamraveggirnir vestan megin ár hluti af Þjórsárhrauni hinu mikla. Urriðafoss sjálfur er svo margbreytilegur og óreglulegur og í raun fellur Þjórsá þarna ekki í einum fossi heldur mörgum fossabrotum og flúðum, sem sums staðar mynda langa og breiða stalla. Aðalstrengur árinnar liggur um djúpa sprungu í farveginum miðjum og er sá hluti fossins mest áberandi þar sem meginþungi vatnsins fellur þar. Enginn ætti að verða svikinn af því að heimasækja þennan risa meðal íslenskra fossa.
Urriðafoss mun að mestu þorna upp ef af Urriðafossvirkjun verður. |
Hópur áhugafólks um verndun Þjórsár
Aðstandendur og höfundar efnis
verndumthjorsa [hjá] gmail.com facebook.com/verndumthjorsa instagram: #thjorsa |
Flýtileiðir |
![]() |
Allt efni á síðunni, utan ljósmynda og myndbanda, er opið og er fjölmiðlum sem og öðrum frjálst að nota texta og kort sé heimilda getið. Ef óskað er eftir að fá að nota myndir eða myndbönd af vefnum, eða að fá afhent kortagögn af vefnum í skráarformi, skal senda póst á verndumthjorsa [hjá] gmail.com
|
Nú er komið nóg! Ekki fleiri ónauðsynlegar virkjanir í Þjórsá!