Neðri hluti Þjórsár er ríkur af tilkomumiklum fossum þótt færri þekki líklegast til þeirra en annarra þekktra fossa á Suðurlandi, eins og Gullfoss, Seljalandsfoss og Skógafoss. Þar sem Þjórsá er vatnsmesta fljót landsins á eftir Ölfusá eru fossarnir í neðri hluta Þjórsár þeir allravatnsmestu á landinu.
Urriðafoss er neðsti fossinn og jafnframt vatnsmesti foss landsins. Hann liggur í ánni rétt neðan við brúna á Hringveginum og er því í raun algjör skylduáningarstaður fyrir alla sem ferðast um Suðurlandið. Nokkru ofar í Þjórsá eru Búði og Hestfoss, sitt hvoru megin við eyjuna Árnes, og enn ofar Þjófafoss og Tröllkonuhlaup. Enn fremur eru víða flúðasvæði, sem brjóta upp annars lygnan farveginn, og grunnt en gullfallegt gljúfur má finna í farvegi Þjórsár austur undir Búrfelli. Frekari lýsingar á fossunum má finna á síðunni um fallega staði við Þjórsá. |
Landslagið við Þjórsá hefur ákveðinn, fallegan heildarbrag yfir sér. Landið er hæðótt, víða með ávölum holtum og lágum fellum. Berggrunnurinn á svæðinu er að mestu leyti gamall og sorfinn af fornum ísaldarjöklum. Að Búrfelli og Heklu undanskildum eru fellin umhverfis Þjórsá flest í raun aðeins hæðir sem ísaldarjökullinn hefur ekki náð að klára að grafa niður heldur mótað á ýmsa vegu. Þetta eru því ekki fjöll mynduð við stök eldgos heldur í raun hraunlög, sem rofist hafa niður í gegnum jarðsöguna. Í krikum á milli niðurgrafinna hraunlaganna liggur grunnvatn oft hátt og landið er því víða votlent með mýrarflákum.
Þjórsá rennur um og utan í stærsta hrauni, sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá lokum síðasta ísaldarskeiðs. Hraunið er einfaldlega kallað Þjórsárhraun hið mikla og er talið vera um 8600 ára gamalt. Það átti upptök sín langt inni á öræfum, líklegast inni á Veiðivatnasvæðinu. Ekki hefur tekist að rekja hraunið til ákveðinna eldstöðva og eru þær taldar að mestu eða öllu leyti horfnar undir yngri eldstöðvar. Þjórsárhraun streymdi niður á láglendið, fram með núverandi farvegi Þjórsár og alla leið niður að sjó á milli Þjórsár og Ölfusár. Þessi tvö mestu fljót landsins renna í sitt hvorum jaðri hraunsins þegar komið er niður á láglendið. Víða má sjá hraunveggi Þjórsárhraunsins í farvegi árinnar, gjarnan ákaflega fallega stuðlaða, og fellur Búði til að mynda fram af hraunjaðri þess. Ofan Landsveitar milli Skarðsfjalls og Galtalækjar er Þjórsárhraunið hins vegar hulið af yngri hraunlögum. Fallegust eru þau í farvegi Þjórsár austan Búrfells, við Þjófafoss og í gljúfrinu þar fyrir ofan. |
Flestir tengja líklegast Þjórsá við Búrfell og Heklu, sem gnæfa yfir ofanverðri ánni og umhverfi hennar. Hekla er eitt afkastamesta eldfjall Íslands, og það sem lengst af sögunnar var þekktast utan landsteinanna. Þótt Eyjafjallajökul hafi að einhverju leyti tekið við kyndlinum eftir gosið árið 2010 er Hekla enn ein af þekktustu náttúruperlum landsins og einn þeirra staða sem flestir erlendir ferðamenn vilja sjá. Hekla gaus áður fyrr í Íslandssögunni helst stórgosum, hér um bil einu sinni á hverri öld, en frá 1970 hefur hún gosið á um tíu ára fresti. Síðasta gos var árið 2000 og hefur hún ekki látið á sér bæra eftir það. Landris við Heklu, sem gefur til kynna kvikusöfnun undir henni, hefur þó þegar náð því stigi sem var fyrir síðustu eldgos. Út frá því mætti því segja að Hekla sé tilbúin í eldgos, en að sjálfsögðu er þó nánast ómögulegt að spá nokkru fyrir um hvenær það verður. Þeir sem hyggja á göngu á Heklu skyldu hafa þetta í huga.
Búrfell er aftur á móti fjall sem varð til í einu stöku eldgosi undir jökli ísaldar. Það er því svo kallað móbergsfjall, skriðurunnið í hlíðum en hnarreist að ofan og hömrum girt. Ekki þarf að óttast eldgos í Búrfelli og það er því tilvalið til uppgöngu, þótt víða sé það þó illkleyft. Raunar liggur vegur upp á fjallið norðanvert um aflíðandi hlíðar og er best að ganga upp á fjallið þar. Útsýni ofan af Búrfelli er stórfenglegt og má þar fá góða tilfinningu fyrir Þjórsárdalnum og efri hluta Þjórsár þar sem hún rennur ofan af hálendinu. |
Eyjurnar í Þjórsá eru fjölmargar og misstórar, og hafa jafnvel verið reist hús í sumum þeirra. Nafngreindar eyjur, hólmar, sker og eyrar í Þjórsá eru á fjórða tug. Þekktust er líklegast Árnes, sem áður fyrr var raunar ekki eyja heldur nes líkt og nafnið gefur til kynna, áfast núverandi vesturbakka árinnar. Viðey eða Minnanúpshólmi er önnur eyja, friðuð frá árinu 2011, og er hún viði vaxin líkt og nafnið bendir til. Hún nýtur náttúrulegrar verndar og einangrunar af hálfu sjálfrar Þjórsár, þar sem fljótið rennur straumhart og þungt beggja vegna eyjunnar. Frekar er sagt frá Árnesi og Viðey í kaflanum um fallega staði við Þjórsá.
Aðrar eyjur í Þjórsá eru meðal annars Hagaey, Ölmóðsey, Miðhúsahólmi og Traustholtshólmi rétt ofan við ósa fljótsins. Gaman væri ef einhverjir tækju sig til og næðu myndaröð af öllum þekktum eyjum í ánni. Myndirnar mætti endilega senda á netfang síðunnar, verndumthjorsa [hjá] verndumthjorsa.is. |
Hópur áhugafólks um verndun Þjórsár
Aðstandendur og höfundar efnis
verndumthjorsa [hjá] gmail.com facebook.com/verndumthjorsa instagram: #thjorsa |
Flýtileiðir |
![]() |
Allt efni á síðunni, utan ljósmynda og myndbanda, er opið og er fjölmiðlum sem og öðrum frjálst að nota texta og kort sé heimilda getið. Ef óskað er eftir að fá að nota myndir eða myndbönd af vefnum, eða að fá afhent kortagögn af vefnum í skráarformi, skal senda póst á verndumthjorsa [hjá] gmail.com
|
Nú er komið nóg! Ekki fleiri ónauðsynlegar virkjanir í Þjórsá!